Sagan Jakob Ærlegur eftir Frederick Marryat er ein af þessum sígildu sögum sem allir ættu að lesa. Er vandfundin sú saga sem endurspeglar jafn mikla frásagnagleði og veitir lesandanum jafn mikla ánægju. Hún fjallar fyrst og fremst um drenginn Jakob sem verður fyrir því óláni að missa foreldra sína ungur og stendur í kjölfarið uppi munaðarlaus. Hafði hann þá alið allan sinn stutta aldur með foreldrum sínum á flutningabát á ánni Thames og vissi ekkert um lífið utan þess sem sneri að því. Fylgjumst við með honum takast á við nýjan og framandi veruleika allt fram á fullorðinsár. Auk aðalpersónunnar kynnumst við mörgum öðrum áhugaverðum persónum í bókinni sem seint hverfa úr minni. Sagan kom fyrst út árið 1834 og varð strax mjög vinsæl. Þá var hún lesin af öllum aldurshópum, en af einhverjum undarlegum ástæðum hefur hún að undanförnu verið flokkuð sem barna- og unglingabók, sem er synd. Jakob Ærlegur er saga sem allir geta haft ánægju af að lesa.